Starfsemin

Mannauður

Í starfsmannastefnu fyrirtækisins er lögð áhersla á að starfsfólk upplifi vellíðan í vinnu. Stefnan miðar að því að búa starfsfólki framúrskarandi vinnuaðstöðu, huga að líkamlegri og andlegri heilsu þess og gefa því möguleika á sveigjanleika í vinnu. Einblínt er á jafnvægi milli vinnu og einkalífs sem og öryggi og heilsu starfsmanna. Sýn gætir jafnréttis starfsmanna á öllum sviðum. Í jafnréttisáætlun félagsins kemur fram að leitast er við að gæta fyllsta jafnréttis kynjanna og þess er gætt að starfsmönnum sé ekki mismunað. Lögð er áhersla á að allir starfsmenn séu metnir að eigin verðleikum og umburðarlyndi sé ríkjandi þáttur í samskiptum. Stuðlað er að fjölbreytileika í starfsmannahópi til að endurspegla stóran viðskiptavinahóp félagsins, með það að markmiði að nýta sem best hæfileika hvers og eins.

0
Meðalstarfsaldur í árum
0
Fjöldi starfsfólks
0
Meðalaldur í árum
0
0

Endurskipulag

Árið 2019 einkenndist af töluverðum mannabreytingum innan fyrirtækisins og endurskipulagningu eininga innan þess. Áhersla var lögð á að koma nýjum stjórnendum hratt og vel inn í störfin. Nýjum stjórnendum hafa fylgt ferskir vindar, innleiðing nýrrar stefnu og áherslna sem unnið verður eftir á komandi misserum.

Kjaramál

Kjaramál voru fyrirferðarmikil á árinu á sviði mannauðs. Innleiðing lífskjarasamningsins krafðist undirbúnings, þá einna helst með tilliti til vinnustyttingarinnar. Mikill sveigjanleiki var til staðar í flestum einingum fyrirtækisins áður en með nýjum kjarasamningum var sveigjanleikinn formfestur.

Samningar blaðamanna hafa verið lausir síðan í apríl 2019. Blaðamenn lögðu niður störf í þrígang í nóvember. Nú standa yfir samningaviðræður og vonir bundnar við að samningar náist sem fyrst.

Þá hefur einnig verið unnið að því að endursemja við félaga í Rafiðnaðarsambandinu sem starfa samkvæmt sérkjarasamningi 365.

Jafnlaunavottun

Síðastliðið sumar hlaut félagið formlega jafnlaunavottun eftir úttekt sem framkvæmd var af BSI á Íslandi. Með vottuninni staðfestist að hjá Sýn er starfrækt jafnlaunakerfi sem stenst kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012. Með innleiðingu jafnlaunastaðalsins hefur Sýn komið sér upp stjórnkerfi sem styður við faglegar launaákvarðanir, byggðar á málefnalegum sjónarmiðum sem fela ekki í sér kynbundna mismunun. Félagið fer í gegnum endurvottun á staðlinum í maí 2020.

Jafnlaunastefna Sýnar.

Loading...

Vinnuverndarvottun

Í nóvember varð Sýn fyrst íslenskra fyrirtækja til að hljóta vinnuverndarvottunina ISO 45001 samkvæmt nýrri útgáfu staðalsins. Mannauður tók þátt í vottunarferlinu ásamt fjölmörgum öðrum einingum. Fyrirtækið hlaut lof fyrir það góða starf sem unnið hefur verið í vinnuverndarmálum hingað til en einnig ábendingar um það sem betur mætti fara. Unnið hefur verið markvisst að því að bæta úr úrlausnarefnum á árinu og fór félagið í gegnum endurvottun í febrúar 2020. Vottunin staðfestir að félagið vinnur heilshugar að stöðugum umbótum með það fyrir augum að bæta öryggi og heilsu starfsfólks.

Öryggis-, heilbrigðis og vinnuumhverfisstefna

Vinnuverndarhandbók Sýnar.

UNI

Sýn hefur það að markmiði að allir starfsmenn fái þá þjálfun sem er félaginu til framdráttar með bættum innri samskiptum og þjónustu við viðskiptavini. UNI er regnhlífarhugtak sem nær yfir allt fræðslustarf innan Sýnar. Með UNI viljum við tryggja góða og samræmda grunnþjálfun starfsmanna um leið og við veitum starfsfólki sérhæfða þjálfun og fræðslu sem hentar starfi hvers og eins.

Fræðsla UNI fer ýmist fram með staðnámi eða með rafrænum hætti í gegnum rafrænt fræðslukerfi þar sem starfsfólk hefur aðgang að margskonar fræðslu hvar og hvenær sem er. Allir nýliðar fyrirtækisins fara í gegnum sama nýliðanámskeiðið þar sem stjórnendur og helstu sérfræðingar fyrirtækisins kynna starfsemina, skipulag og verklag fyrir nýliðum. Grunnnámskeið UNI fer fram fjórum sinnum á ári og hefur mælst afar vel fyrir á meðal nýrra starfsmanna.

Á árinu 2019 lögðum við, líkt og áður, ríka áherslu á öryggisþjálfun og fræðslu til starfsfólks um upplýsingaöryggi en þau mál skipta okkar fyrirtæki miklu máli og eru okkur hugleikin.

Vinnustaðagreining

Á árinu var framkvæmd fyrsta vinnustaðagreiningin fyrir sameinað félag og var afar ánægjulegt að sjá hversu vel hún kom út. Starfsfólk var á heildina litið stolt af vinnustaðnum, taldi þar ríkja góðan starfsanda og jafnrétti á meðal starfsfólks. Starfsánægja mældist 4,2 af 5 mögulegum sem verður að teljast ágætt, almennt hlakkar fólk til að mæta til vinnu auk þess sem að meðmælaskor starfsfólks með vinnustaðnum mældist 4,1 af 5 mögulegum.

Starfsfólk taldi álag hafa verið heldur meira en við síðustu greiningu sem framkvæmd var fyrir sameiningu. Þær niðurstöður komu ekkert sérstaklega á óvart þar sem verkefni tengd sameiningunni hafa valdið álagi í flestum einingum en teljum við þó að stærstu verkefnin séu nú að baki.

Stefnumótun

Síðastliðið sumar var farið af stað í stefnumótunarvinnu fyrir allt félagið. Öllum starfsmönnum gafst kostur á því að taka þátt og var þátttakan frábær. Mikill samhugur var um áherslur, sem eru í grunninn þrjár:

Einfalda

Upplifun

Tryggð

Í kjölfarið varð til ný samskipta- og vörumerkjastefna. Við innleiðingu stefnunnar var ákveðið að nota 4DX aðferðafræðina þar sem verkefnin hjá hverju sviði voru sýnileg öllu starfsfólki. Sett voru upp „stríð“ og „orrustur“ sem að allar deildir tengdu sig við og áherslan var lögð á ánægju viðskiptavina.

Í nokkur ár höfum við stutt okkur við Lean aðferðafræði og er þessi sýnilega stjórnun partur þar af. Einnig hefur verið unnið að því að greina ferla, minnka sóun, stytta boðleiðir og fleira sem að styður við hina nýju stefnu.

Þessi vinna hefur verið lærdómsrík og skemmtileg og skilað miklu í því stóra verkefni að sameina tvo menningarheima innan fyrirtækisins.

Á döfinni

Á vormánuðum er stefnt að því að fara af stað með vinnustofu á vegum Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar fyrir ungt fólk sem hefur áhuga á störfum í fjölmiðlum. Þar gefst þátttakendum einstakt tækifæri til að skyggnast inn í heim fjölmiðla á Íslandi, fá fræðslu og leiðsögn frá fagfólki á hverju sviði og spreyta sig á hinum fjölmörgu verkefnum sem felast í fjölmiðlum á sviði frétta, íþrótta, útvarps og sjónvarps. Nú þegar hefur verið auglýst eftir umsóknum um þátttöku á vinnustofunni og bárust yfir 100 umsóknir sem sýnir gríðarlegan áhuga á miðlum fyrirtækisins.

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.