Árið 2019

Að gera meira fyrir minna

Hvert sem litið er í heiminum er áskorunin sú sama: Hvernig er hægt að gera meira fyrir minna? Samfélagið býður ekki upp á það að gera meira fyrir meira, eða gera minna fyrir minna, eins og sumir telja að sé náttúrulögmál. David Attenborough, náttúrufræðingurinn margfrægi sagði „sá sem trúir á endalausan vöxt er annað hvort galinn – eða hagfræðingur“. Þarna verður honum á í messunni, enda er framleiðniaukning eitthvað sem sést ekki í líffræði, en hefur skapað þá velmegun sem heimurinn býr við í dag. Við erum alltaf að gera meira fyrir minna. Það kallast framþróun.

Almennt er álitið, og þar er Attenborough sammála, að sóun sé slæm. Þar sem okkar fyrirtæki er í grunninn þjónustufyrirtæki þá er það skylda okkar að sinna viðskiptavinum okkar betur og betur, með minni tilkostnaði. Eins er það skylda okkur að reka kerfin okkar þannig að við getum boðið meiri hraða, öruggari tengingu, betri útsendingu og betra efni án þess að kosta meiru til.

Vísitala fjarskipta – undirvísitala vísitölu neysluverðs sem Hagstofan heldur utan um — sýnir 80% lækkun á árunum 2015–2019. Verð á sjónvarpsáskriftum hefur einnig lækkað mikið, á bilinu 20–50%. Allt þetta hefur gerst á sama tíma og vísitala launa hefur hækkað um meira en 30%. Gæðin á því sem við seljum hafa aukist. Háhraðatengingar, háhraða-farnet sem nær til 99,7% landsmanna og langt út á sjó. Innlend framleiðsla hefur aldrei verið meiri hjá okkur og gæði þessa efnis hafa aukist að sama skapi. Sem dæmi má nefna að í fyrsta skipti í 35 ára sögu Stöðvar 2 voru áskriftartekjur hærri í janúar en í desember, sem hingað til hefur alltaf verið alger toppmánuður. Við teljum okkur því standa undir væntingum – og vel það.

Stefnumótun

Fyrirtækið fór í gegnum löngu tímabæra stefnumótunarvinnu í júní á síðasta ári. Sú vinna var unnin af starfsfólki, frá grasrót og upp og tókst stórvel. Alger samhugur var um áherslur, sem eru í grunninn þrjár:

Stefna

Í framhaldi af þessari vinnu var ný samskiptagreining og ný vörumerkjastefna tekin upp. Þar er hinni nýju stefnumótun fylgt eftir. Á þeim tímapunkti var ákveðið að leggja í átaksverkefnið 4DX. Þar var einnig alger samhugur um áhersluna: Ánægja viðskiptavina. Skemmst er frá því að segja að fyrirtækið setti met í bættu þjónustustigi á tímabilinu og hefur aldrei, í langri sögu, komist nálægt þeim gildum sem þar sáust í fyrsta sinn.

Til þess að ná meiri árangri breyttum við skipuriti. Við höfum einnig sameinað deildir og breytt verklagi sem leiðir til enn frekari framleiðniaukningar. Helstu breytingar á skipuriti voru eftirfarandi: Auglýsingasvið var fært inn á fyrirtækjasvið af miðlum. Mannauðssvið var fært undir forstjóra frá fjármálasviði. Markaðssvið færðist af einstaklingssviði, var breytt í samskiptasvið og heyrir nú beint undir forstjóra. Eins höfum við útvíkkað rekstrarsvið þannig að allt sem snýr að hugbúnaðargerð og reikningagerð heyrir nú beint þar undir. Þetta teljum við að leiða muni til einfaldari og betri rekstrar.

Skipurit-Feb2020

Starfsandi og mikilvægi frumkvæðis

Í dag er fyrirtækið samsett af brautryðjendum, hverjum á sínu sviði: Stöð 2, Bylgjunni, FM957, X-inu, visir.is, Tal, Íslandssíma og fleiri aðilum sem börðust gegn ríkiseinokun á sínum tíma. Þau ruddu brautina og buðu upp á nauðsynlegar nýjungar á markaði. Það er grunnt á frumkvöðlaandanum hjá okkur; hann litar starfsemina – gerir hana lifandi og skemmtilega.

Samstarfið innan félagsins hefur verið mjög gott. Ný framkvæmdastjórn er mjög vel samstillt og hefur gríðarlegan metnað fyrir hönd viðskiptavina okkar og allra sem í hlut eiga.

Stjórnarstarf

Samstarf mitt við stjórnina hefur verið til fyrirmyndar. Það er óvenjulegt að formaður stjórnar taki sæti forstjóra. Að sama skapi er óvenjulegt að annar meðlimur stjórnar komi inn í framkvæmdastjórn. Mér þykir þetta til marks um þá alvöru og einhug sem ríkir hjá yfirstjórn fyrirtækisins.

Það er ekki hlaupið að því að finna aðila sem helga sig starfi sínu og eru tilbúnir að fórna miklu til þess að heildin nái sem mestum árangri. Það er umhugsunarvert hversu mikil breyting á stjórnum hlutafélaga er skynsamleg hverju sinni. Það tekur tíma að byggja upp traust og læra inn á styrkleika hvers og eins. Liðsheild er þar lykilatriði.

Öllum sem hafa fylgst með liðsíþróttum — sem er alls ekki ósvipuð fyrirtækjarekstri — er ljóst að þar næst ekki árangur nema með sameiginlegri sterkri sýn þar sem notast er við mismunandi hæfileika, allt eftir því um hvaða stöðu er að ræða.

Anna Guðný Aradóttir gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu. Hún hefur verið í stjórn í 8 ár, allt frá skráningu í Kauphöll. Ég þakka henni kærlega fyrir traust og gott samstarf síðustu ár.

Áherslur 2020

Eftir að hafa lokið stefnumótun, breytt framkvæmdastjórn, sett upp nýtt skipurit og gert gangskör að því að laga þjónustu við viðskiptavini höfum við lagt grunninn að sókninni fram á við. Við ætlum okkur að auka ánægju viðskiptavina okkar enn frekar. Við ætlum að einfalda reksturinn og þjónustuna og halda áfram að auka virði viðskiptsambanda okkar og hluthafa.

,,Áherslan næstu ár er að gera meira fyrir minna.“ Heiðar Guðjónsson, forstjóri

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.