Árið 2019

Að sjá!

Hvernig var árið 2019 hjá Sýn? Það var að mínu mati tímamótaár, sé litið til lengri tíma. Þetta var annað árið í sameinuðu fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtæki. Það er auðvitað mikilvægt en samt ekki það sem stendur upp úr. Það sem stendur upp úr er að 2019 var árið sem Sýn réðst í kjarkmiklar breytingar sem munu gjörbreyta fyrirtækinu til nánustu framtíðar.

Lykilatriðið er að þetta var árið sem við ákváðum að skoða okkur sjálf, með augum okkar tryggustu og bestu viðskiptavina, horfast í augu við okkur sjálf og hafa kjarkinn til að forgangsraða, einfalda og laga það sem þyrfti. Það tekur tíma en við höfum þrautseigju og þolinmæði til að ljúka því.

Við höfum allt sem þarf til að vera mest spennandi afþreyingar- og samskiptafyrirtæki landsins. Við höfum gott sölufólk, forritara, tæknimenn, fréttamenn og allar helstu stórstjörnur í íslensku útvarpi og sjónvarpi. Við erum með hraðvirkasta og besta fjarskiptakerfið og bestu tengingarnar erlendis. Við erum með yfirburðastöðu í fjarskiptum á fyrirtækjamarkaði. Við erum með stærsta snertiflöt landsins fyrir auglýsendur. Við erum með nýjar starfstöðvar og frábæra stjórnendur. Við höfum allt sem þarf til að vera mest spennandi kosturinn á okkar markaði. Árið 2019 var árið þar sem samstilling allra þessara mikilvægu strengja hófst fyrir alvöru til hagsbóta fyrir okkar tryggustu og bestu viðskiptavini.

Hvað með fjárhagslegu hliðina? Þetta var, í sannleika sagt, ekki árið sem við glönsuðum fjárhagslega eða á hlutabréfamarkaði. Það er augljóst. Leiðin til að laga þetta er að stilla vöruframboði okkar upp á annan hátt en tíðkast hefur. Viðskiptavinurinn þarf að geta gert það sem hann vill, þegar hann vill og í þeim mæli sem hann vill. Við þurfum aukinn einfaldleika og sveigjanleika í hvernig við bjóðum fram okkar vörur. Að því er unnið hörðum höndum. Við ætlum líka að gæta betur að því að forgangsraða verkefnum eftir framlegð og brjótast úr viðjum úreltra viðmiða í efniskaupasamningum. Síðast en ekki síst, ætlum við að gera betur í að einfalda allt sem snýr að samskiptum við viðskiptavini okkar; þar með talið reikningagerð.

Á árinu voru miklar breytingar á stjórnendahópi Sýnar hf. Heiðar Guðjónsson var ráðinn forstjóri í apríl. Hann hefur sýnt – á stuttum tíma í starfi – að hann var rétti maðurinn til að stíga inn í þá viðkvæmu stöðu sem fyrirtækið var komið í um þær mundir. Þórhallur Gunnarsson tók við sem framkvæmdastjóri miðla í maí, Signý Magnúsdóttir tók við stöðu fjármálastjóra í júní og loks tók Yngvi Halldórsson við sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs í desember. Þau, ásamt Kjartani Briem, framkvæmdastjóra tæknisviðs, og Páli Ásgrímssyni yfirlögfræðingi draga nú vagninn og mynda nýja, firnasterka framkvæmdastjórn fyrirtækisins. Þessi mannaskipti voru annað lykilatriði ársins 2019 sem breyta stöðunni til framtíðar.

,,Við erum stolt af svo mörgu sem gerðist 2019 og er ekki talið upp hér. Árið var krefjandi en það var skemmtilegt. Í ár verðum við ennþá betri!“ Hjörleifur Pálsson, stjórnarformaður

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.