Árið 2019

Tímalína ársins

Árið 2019 fór félagið í gegnum stefnumótunarvinnu í samvinnu við starfsfólk. Ánægjulegt var að sjá að algjör samhugur var um áherslur félagsins næstu misseri. Vörumerki félagsins hafa í gegnum tíðina rutt brautina, hvert á sínu sviði, og boðið upp á nýjungar á markaði. Að starfa í slíku umhverfi fylgir mikill slagkraftur og mátti merkja þessa brautryðjendahugsun í stefnumótunarvinnu starfsfólksins. Til þess að skerpa á skipulagi fyrirtækisins og ná enn meiri árangri sameinuðum við einingar og breyttum verklagi sem hefur aukið skilvirkni og framleiðni. Allar breytingar voru gerðir með ánægju viðskiptavina og starfsfólks að leiðarljósi. Við erum afar stolt af árangrinum árið 2019 og starfsfólkinu okkar sem leiddi sjálft stefnumótunarvinnuna.

Janúar
Rauði krossinn og Sýn í samstarf 
Sýn og Rauði krossinn á Íslandi gerðu með sér samstarfssamning sem í felst stuðningur Sýnar við alþjóðlegt hjálparstarf Rauða krossins, nánar tiltekið verkefnið Brúun hins stafræna bils. Það aðstoðar landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans í fimmtán Afríkuríkjum að bæta þekkingu og búnað í upplýsinga- og samskiptatækni svo þau megi efla getu sína í hjálparstarfi. Samstarfssamningurinn er til tveggja ára og felur í sér að Sýn lánar starfsmann með sérþekkingu í upplýsinga - og samskiptatækni til að sinna verkefnum sendifulltrúa í verkefninu.
Janúar
Fokk Ofbeldi
Vodafone hefur um árabil verið stoltur samstarfsaðili UN Women á Íslandi og fastur liður í samstarfinu er salan á Fokk Ofbeldi húfunni í verslunum Vodafone. Fokk Ofbeldi herferðinni er ætlað að vekja fólk til vitundar um ofbeldi gegn konum og stúlkum.
Febrúar
„Nýtt“ Stöðvar 2 app 
Um miðjan febrúar var gamla 365 appinu lokað og í stað þess kom nýtt og öflugra Stöð 2 app. Mikill metnaður var lagður í að stórbæta myndgæði og tryggja að notendaupplifun og stöðugleiki sé með allra besta móti. Notendur nýja appsins hafa lýst mikilli ánægju með það, segja viðmótið til fyrirmyndar og upplifunina jákvæða.
Febrúar
5 tilnefningar til Eddunnar
Stöð 2 hampaði fimm tilnefningum til Edduverðlaunanna 2019. Tilnefningar Stöðvar 2 voru eftirfarandi: Fósturbörn sem frétta- eða viðtalsþáttur ársins og Steypustöðin sem leikið sjónvarpsefni ársins. Björgvin Harðarson var tilnefndur í flokknum upptöku eða útsendingastjórn fyrir Allir geta dansað og einnig Pál Óskar í Höllinni. Að síðustu var Sigrún Ósk Kristjánsdóttir tilnefnd sem sjónvarpsmaður ársins fyrir Allir geta dansað. Björgvin Harðarson hreppti að lokum Edduverðlaunin fyrir útsendingastjórn á tónleikum Páls Óskars í Höllinni.
Febrúar
Pepsi-deildin verður Pepsi Max-deildin  
Sýn hf., fyrir hönd Stöðvar 2 Sport, og Ölgerðin Egill Skallagrímsson sömdu um nafnarétt efstu deilda Íslandsmóts karla og kvenna í knattspyrnu til næstu þriggja ára.
Febrúar
Samruni Heys og Nema genginn í gegn 
Sýn og færeyska félagið Tjaldur komust að samkomulagi um samruna Hey, dótturfélags Sýnar í Færeyjum, og Nema, dótturfélags Tjalds. Samrunin miðaðist við 1. janúar 2019. Hið sameinaða félag er leiðandi fyrirtæki í upplýsingatækni og fjarskiptum. Samruninn felur í sér kostnaðarhagræði og kemur til með að „leysa úr læðingi frekari verðmætasköpun“ með fjölbreyttara vöruframboði og sölumöguleikum, einkum á fyrirtækjamarkaði
Mars
Farsímadreifikerfi Vodafone dekkar nær alla landsmenn  
Farsímadreifikerfi Vodafone standa sterkt þar sem mikil áhersla hefur verið lögð á útbreiðslu víða um land. Er svo komið að kerfið nær til tæplega 210 þúsund ferkílómetra á landi og sjó og yfir 99% landsmanna eftir búsetu. Í fyrsta skipti nær 4G kerfi Vodafone til stærra svæðis og fleiri íbúa en 3G kerfið.
Mars
Samningur endurnýjaður um Mjólkurbikarinn  
Fulltrúar Mjólkursamsölunnar og Sýnar hf. sem á m.a. Stöð 2 Sport og Vísi skrifuðu í mars undir nýjan eins árs samning um að bikarkeppnir karla og kvenna í knattspyrnu heiti áfram Mjólkurbikarinn. Bikarkeppnin hét þessu nafni frá 1986 til 1996 en Mjólkurbikarinn sneri svo aftur síðastliðið sumar við góðar undirtektir.
Apríl 
Höfuðstöðvar lýstar upp með bláu
Blár apríl, alþjóðlegur dagur einhverfu, fór fram í apríl. Styrktarfélag barna með einhverfu stendur fyrir vitundarvakningunni sem er árleg. Sýn lagði átakinu lið og voru höfuðstöðvarnar við Suðurlandsbraut lýstar upp með bláa litnum og starfsfólk mætti bláklætt til vinnu.
Apríl
Sýn og Landsbjörg endurnýja samstarfið
Slysavarnarfélagið Landsbjörg og Sýn endurnýjuðu samstarf sitt með samningi til þriggja ára. Þannig annast Vodafone fjarskiptaþjónustu Landsbjargar en Vodafone er einn af aðalstyrktaraðilum félagsins. Þá sér Stöð 2 um landssöfnun í beinni útsendingu fyrir Landsbjörg þegar tilefni er til.
Apríl
Sýn fyrirmyndarfyrirtæki
Sýn fékk viðurkenningu fyrir að vera fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum en það er Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti sem efnir árlega til ráðstefnu um góða stjórnarhætti í samvinnu við hagsmunaaðila. Sýn hefur lagt mikinn metnað í góða stjórnarhætti og var t.d. fyrsta fyrirtækið á markaði til að skipa tilnefningarnefnd.
Maí 
Gáfu Píeta-samtökum andvirði páskaeggsins 
Hefð er fyrir því að Sýn gefi starfsfólki sínu súkkulaðiegg á páskahátíðinni og var engin undantekning þar á þetta árið. Hins vegar var sú nýbreytni tekin upp að starfsfólkinu var gefinn kostur á að gefa andvirði páskaeggsins til góðgerðarmála. Fjölmargt starfsfólk valdi þann kostinn og hlutu því Píeta-samtökin styrk að upphæð 297.000 krónur, en samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur. 
Maí
Atvinnuleitin hefst hjá Vísi og Alfreð 
Vísir og Alfreð, stærsti atvinnuleitarmiðill landsins, gerðu með sér formlegt samstarf um opnun nýs atvinnuvefs á Vísi. Allir sem eru í atvinnuleit geta farið inn á vefinn og fundið þar ríkulegt úrval atvinnuauglýsinga sem hafa verið flokkaðar eftir starfsgreinum til að auðvelda fólki leitina. 
Maí
Vodafone hlaut Áttavita Landsbjargar  
Á landsþingi Slysavarnafélagsins Landsbjargar hlaut Vodafone Áttavitann svokallaða. Áttavitinn er viðurkenning fyrir náið samstarf og mikilvægan stuðning við starf Slysavarnafélagsins Landsbjargar í áranna rás en slíkur stuðningur er Landsbjörg ómetanlegur og eflir allt þeirra starf.
Júní
Ofur-háskerpa í sportinu
Sýn var með tilraunaútsendingar á úrslitaleikjum Evrópudeildar UEFA og Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í Ofur-Háskerpu (Ultra HD / 4K). Stöð 2 Sport UHD sýndi báða leikina í opinni dagskrá á IPTV en viðskiptavinir þurftu að hafa bæði myndlykil og sjónvarp sem styðja UHD/4K myndupplausn til að njóta útsendingarinnar í fullum gæðum.
Júní
Sýn og Hopster endurnýja samstarfið
Sýn endurnýjaði samning við barnaefnisveituna Hopster til næstu ára og mun efnisframboð í Hopster fyrir aldurshópinn 2-6 ára, allt með íslensku tali, halda áfram að styrkjast til muna. Boðið verður upp á fleiri þætti, fræðandi efni, leiki og bækur í Hopster appinu sem fylgir öllum áskriftum.
Júlí
Uppbygging 4G kerfis í fullum gangi 
Tæknimenn Vodafone hafa síðustu misseri verið að fjölga 4G sendum og auka afkastagetuna um allt land, m.a. í þéttbýli, á sumarhúsasvæðum og þar sem fjölmennir viðburðir eru haldnir. Þjóðvega dekkun á 4G hefur því stóraukist á mörgum svæðum eftir verkefni sumarsins og bjóðum við nú 4G dekkun að miklu leyti frá Reykjavík til Akureyrar, sem þýðir mun betri upplifun á streymisveitum fyrir þá sem eru á ferðinni. 
Júlí
Sýn kaupir Endor  
Sýn gekk frá frá samkomulagi um kaup á Endor með fyrirvörum um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og samþykki eftirlitsaðila. Kaupin gengu í gegn í byrun desember. Endor sér um að reka og stýra ofurtölvum og tengdri þjónustu í Svíþjóð, Noregi, Þýskalandi og víðar.
Ágúst
Sýn hlýtur jafnlaunavottun  
Sýn hlaut formlega jafnlaunavottun á allt félagið í ágúst en úttektin var framkvæmd í maí 2019 af BSI á Íslandi. Með vottuninni staðfestist að hjá Sýn er starfrækt jafnlaunakerfi sem stenst kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012. Með innleiðingu jafnlaunastaðalsins hefur Sýn komið sér upp stjórnkerfi sem styður við faglegar launaákvarðanir, byggðar á málefnalegum sjónarmiðum sem fela ekki í sér kynbundna mismunun.
September
Stöð 2 – margfalt skemmtilegri
Haustið fór af stað með miklum krafti á Stöð 2 en við frumsýndum 30 íslenska þætti í september og erum gríðarlega stolt af fjölbreyttu úrvali og gæðum íslensku þáttanna okkar. Við vígðum einnig nýtt stúdíó í Ármúla þegar Föstudagskvöld með Gumma Ben fór í loftið, en þar fara Gummi og Sóli Hólm á kostum í beinni útsendingu við frábærar viðtökur.
September
Stærsta efnisveitan með íslenskt efni
Efnisúrvalið í Stöð 2 Maraþon hefur stóraukist undanfarna mánuði en efnisveitan er sú stærsta á landinu með íslenskt sjónvarpsefni. Þar hafa áskrifendur aðgang að vönduðu íslensku sjónvarpsefni, nýjustu þáttaröðunum, barnaefni með íslensku tali og hátt í þúsund kvikmynda. Nýir þættir koma nú fyrr inn og jafnvel samhliða línulegum sýningum.
Október
Höfuðstöðvar baðaðar í bleiku
Bleika slaufan, árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands gegn krabbameini hjá konum, fór fram í október. Sýn lagði átakinu lið og voru höfuðstöðvarnar við Suðurlandsbraut baðaðar í bleika litnum og starfsfólkið hélt Bleika daginn hátíðlegan.
Nóvember
Allir geta dansað
Önnur þáttaröð af Allir geta dansað hófst í nóvember en þar kepptu 10 þjóðþekktir Íslendingar í dansi, paraðir saman við tíu fagdansara. Þáttaröðin var gríðarlega vinsæl en um 1200 manns sáu þá í sjónvarpssal, 1.000 klukkustundir fóru í að útbúa búninga keppenda og hvert par æfði að meðaltali um 4 klukkustundir á dag. Vala Eiríks, útvarpskona á FM957, og Siggi sigruðu keppnina í glæsilegum lokaþætti.
Nóvember
Vodafone og Landspítali endurnýja samstarfið
Landspítali skrifaði undir 4 ára samning við Vodafone um heildarfjarskipti. Það er mikil viðurkenning fyrir Vodafone að stofnun á borð við Landspítalann treysti okkur áfram fyrir sínum fjarskiptum sem eru gríðarlega mikilvæg í þeirra rekstri. Um er að ræða einn stærsta vinnustað landsins með yfir 5000 starfsmenn. Samstarfið hefur verið farsælt undanfarin ár en Vodafone hefur séð spítalanum fyrir fastlínu- og fjarskiptaþjónustu frá árinu 2002.
Desember
Landsvirkjun og Reykjavík DC gera grænan rafmagnssamning  
Landsvirkjun og Reykjavík DC, nýtt hátæknigagnaver í Reykjavík í eigu Opinna Kerfa, Sýnar, Reiknistofu Bankanna og Korputorgs, undirrituðu grænan rafmagnssamning um afhendingu á allt að 12 MW til nýs gagnavers við Korputorg í Reykjavík. Reykjavík DC verður fjórði viðskiptavinur Landsvirkjunar í gagnaversiðnaði, enda henta aðstæður á Íslandi sérstaklega vel fyrir rekstur gagnavera. 
Desember
Vodafone, Síminn og Nova undirrita viljayfirlýsingu
Markmið viðræðna aðila er að kanna möguleika á því að vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins, draga úr umhverfisraski og auka almannaöryggi með því að eiga með sér samstarf um uppbyggingu fjarskiptainnviða.  Með viðræðunum vilja aðilar kanna möguleika á því að fyrirtækin geti byggt undir markmið Alþingis sem koma fram í stefnu Alþingis í fjarskiptum fyrir árin 2019-2033 um aðgengi að fjarskiptum, öryggi fjarskipta, hagkvæmni og skilvirkni fjarskipta sem og að draga úr umhverfisáhrifum fjarskipta. 

Við notum vefkökur til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum, að öðrum kosti getur þú kynnt þér hvernig má stýra notkun þeirra.